Píludeild Þórs ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Það verður væntanlega ljóst um helgina þegar deildin heldur Akureyri Open með yfir 150 keppendum.
Uppgangur pílukastsins hefur verið með ólíkindum eins og fram hefur komið í fréttum. Akureyri Open er líka vinsælla nú en nokkru sinni áður. Í fyrra voru 72 keppendur og það var metþátttaka. Nú eru þeir meira en tvöfalt fleiri en það! Aðstaða píludeildarinnar í íþróttahúsinu við Laugargötu rúmar ekki slíkan fjölda sem ætlar að mæta um helgina og því var gripið til þess ráðs að fá inni í Sjallanum – og hafa í því sambandi gantast með „Sjally Pally“ með vísun í frægan keppnisstað á Englandi. Það verða að vísu ekki jafn margir áhorfendur í Sjallanum og í Ally Pally, en það verður þó fjölmennt því þegar hafa yfir 200 manns bókað borð á úrslitakvöldið. Píludeildin hefur sent út upplýsingar til keppenda, en mótið er einnig opið áhorfendum og fer miðasala á lokakvöldið og ball sem haldið verður í Sjallanum á laugardagskvöld fram á tix.is.
Fjallað hefur verið um mótið og rætt við aðstandendur þess á Akureyri.net – sjá hér.
Af þeim 153 keppendum sem skráðir eru til leiks eru 128 karlar og 25 konur, en spilað verður í kvenna- og karlaflokki.

Upplýsingar um mótið og fyrirkomulag
Keppni hefst á morgun, föstudaginn 23. febrúar kl. 18:00 og verður Sjallinn opnaður kl. 17:00. Keppendur þurfa að staðfesta skráningu að lágmarki 30 mínútum áður en keppni hefst. Við komu í Sjallann fá keppendur armband. Keppendur þurfa að vera með armbandið til að geta tekið þátt í mótinu en armbandið gildir einnig sem miði á úrslitakvöldið og á ballið á laugardagskvöldið.
Á laugardagsmorgun verður húsið opnað kl. 9 og keppni í riðlum hefst kl. 10, síðan útsláttarkeppni í framhaldinu. Á laugardegi er unnið innan ákveðins tímaramma þar sem úrslitakvöldið hefst kl. 19 í Sjallanum. Því verða allir leikir á laugardaginn tímasettir og ef keppandi er ekki mættur á kastlínu á réttum tíma tapar hann þeim leik 0-3.
Sextán riðlar í karlaflokki
Fyrirkomulag mótsins hjá körlum er á þá leið að spilað verður í 16 riðlum og verða átta keppendur í hverjum riðli. Í riðli verður spilað best af fimm. Efstu fjórir keppendur fara áfram upp úr riðli en neðstu fjórir fara í forsetabikarinn.
Fyrirkomulag í útslætti hjá körlum:
- 64ra manna úrslit: Best af 5
- 32ja manna úrslit: Best af 5
- 16 manna úrslit: Best af 7
- Átta manna úrslit: Best af 7*
- Undanúrslit: Best af 7*
- Úrslit: Best af 9*
Átta manna úrslit í karlaflokki hefjast á stóra sviðinu kl. 19. Þeir keppendur sem komast þangað fá að velja sér inngöngulag meðan þeir ganga í gegnum mannhafið í salnum og upp á sviðið.
Forsetabikar:
- 64ra manna úrslit: Best af 5
- 32 manna úrslit: Best af 5
- 16 manna úrslit: Best af 5
- Átta manna úrslit: Best af 5
- Undanúrslit: Best af 5
- Úrslit: Best af 7
Fjórir riðlar í kvennaflokki
Fyrirkomulag mótsins hjá konum er á þá leið að spilað verður í 4 riðlum. Í riðli verður spilað best of 5. Fyrrnefnd á riðlablaði velur heads/tails og svo er búllað í oddalegg. Allar konur fara áfram upp úr riðli.
Fyrirkomulag í útslætti hjá konum:
- 32ja manna úrslit: Best af 5
- 16 manna úrslit: Best af 5
- Átta manna úrslit: Best af 5
- Undanúrslit: Best af 5
- Úrslit: Best af 7
Úrslitin á stóra sviðinu
Úrslitakvöldið á laugardeginum byrjar kl. 19 eins og áður sagði og verður spilað í eftirfarandi röð:
- Átta manna úrslit karla
- Úrslit kvenna
- Undanúrslit karla
- Úrslit karla
