Home Fréttir Akureyri Open 2025 – samantekt

Akureyri Open 2025 – samantekt

by AddiMinn

SjallyPally25

Við viljum byrja á því að þakka öllum þeim aðilum sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti og úr varð stærsta mót í íslensku pílukasti frá upphafi! 

Frábært mót, frábært lokakvöld, frábær mæting, frábært pílukast, stjórn Píludeildar Þórs er ennþá í skýjunum!
Sjallanum var breytt í píluhöll en 36 píluspjöld voru sett upp í Sjallanum.

Keppendur voru 222, 192 karlar og 30 konur. Mótið hófst kl 14:00 á föstudegi þegar 108 karlar mættu til leiks og byrjuðu leiki í sínum riðli. Allt gekk samkvæmt áætlun og seinni riðlar karla og kvennakeppni hófst kl 18:00.

Mikil eftirvænting var í loftinu og tilhlökkun meðal keppenda og andrúmsloftið var frábært. Allir með bros á vör og mættir til að keppa í pílukasti.

Á laugardegi kl 09:00 opnaði Sjallann og keppendur fóru að týnast inn. Útsláttur í A keppni hjá körlum hófst kl 10:00 þegar 128 manna útsláttur hófst. Mikil spenna og ljóst að keppendur voru mættir til að leggja allt í sölurnar og tryggja sér sæti á úrslitakvöldinu.

Riðlakeppni kvenna kláraðist á laugardagsmorgni og útsláttur í forsetabikar hófst kl 11:30 en þar kepptu 60 keppendur um titil.

Kl 13:30 hófust stærstu leikir mótsins hjá körlum þegar 16 manna úrslitin fóru í gang á 8 spjöldum í gryfjunni. Þar voru alvöru einvígi sem áttu sér stað og spennan í loftinu var í hámarki.

Þeir keppendur sem mættust í 16 liða úrslit karla voru:

  • Matthías Örn vs Björn Steinar (4-2)
  • Halli Egils vs Björn Leon (2-4)
  • Arngrímur Anton vs Halli Birgis (4-3)
  • Óskar Jónasson vs Dilyan Kolev (4-3)
  • Vitor Charrua vs Guðlaugur Gústafson (4-0)
  • Ingi Þór vs Friðrik Jakobsson (0-4)
  • Alexander Veigar vs Árni Ágúst (4-0)
  • Jón Oddur vs Magnús Már (4-1)


Það voru því Matti, Björn Leon, Anton, Óskar, Vitor, Friðrik, Alexander Veigar og Jón Oddur sem tryggðu sér sæti á úrslitakvöldi SjallyPally25.

Í kvennaflokki fór að draga til tíðinda uppúr kl 13:00 þegar 16 manna útsláttur fór afstað. Kl 14:30 fóru undanúrslit kvenna í gang og það voru eftirfarandi keppendur sem mættust:

  • Brynja Herborg vs Ingibjörg Magnúsdóttir (0-4)
  • Steinunn Dagný vs Kitta Einarsdóttir (2-4)

Það voru því Ingibjörg og Kitta sem tryggðu sér þátttökurétt á úrslitakvöldi SjallyPally25!

Forsetabikar karla hélt ótrauður áfram og undanúrslitaleikirnir voru spennuþrungnir.

  • Árni Gísli vs Guðmundur Kemp (3-2)
  • Hannes Bjarni vs Sigurður Elíasson (3-2)

Í úrslitum mættust þórsararnir tveir Árni Gísli og Hannes Bjarni og var það Árni Gísli sem hafði betur, 3-0. Óskum Árna innilega til hamingju með sigurinn.

Hlé var gert á mótinu og öll píluspjöld og búnaður voru borin úr Sjallanum og í staðinn komu inn borð og stólar. Þökkum öllum þeim sem aðstoðuðu okkur við það!

Kl 18:00 opnaði Sjallinn fyrir þá sem höfðu tryggt sér miða í úrslitakvöldið. 550 manns komu sér fyrir í gryfjunni og á svölunum. Hitinn og spennan var óbærileg í húsinu!

Dóri Ká setti kvöldið af stakri prýði eins og honum einum er lagið. Hann kynnti John McDonald og Russ Bray inn á sviðið og það má segja að salurinn hafi gjörsamlega sprungið og þakið hafið rifnað af kofanum. Fyrstu leikir fóru í gang og pílukastið var gott.

Meðaltal var í kringum 70 í flestum leikjum og oft á tíðum hærra. Russ Bray fékk að segja 180 nokkrum sinnum og salurinn elskaði það!

Að endingu voru það Matthías Örn Friðriksson og Alexander Veigar sem mættust í úrslitaleik. Báðir voru að spila á tæplega 80 í meðaltali en útskotin voru að stríða Matta og var það Alexander Veigar sem sigraði leikinn 5-1!

Alexander spilaði frábært pílukast í gegnum allt mótið og er vel að sigrinum kominn, óskum honum innilega til hamingju!

Í kvennaflokki voru það Ingibjörg og Kitta sem mættust í úrslitum. Ingibjörg tryllti svo sannarlega salinn með inngöngulaginu sínu og má segja að hún hafi komið sér í góðan gír áður en úrslitaleikurinn hófst.

Ingibjörg spilaði virkilega vel í úrslitaleiknum og vann 4-1! Óskum Ingibjörg innilega til hamingju með sigurinn á SjallyPally25!

Mótsstjórn SjallyPally25 er búin að vera í skýjunum síðan mótinu lauk. Gæðin í pílukastinu voru frábær. Matti skellti í 100,7 í avg í einum leik, stóri fiskurinn var dreginn á land af Sigurði Elíassyni. Við verðum þó að biðja Sigurð innilega afsökunar á því að hafa ekki tekið hann uppá svið í verðlaunaafhendingunni, upplýsingar fóru á mis og biðjum við okkar mann afsökunar.

Góðgerðarleikurinn okkar heppnaðist vel en í heildina voru 116x 180’s sem keppendur hentu í!
Það safnaðist því 580.000.- (5.000kr fyrir hvert 180’s) sem rennur allt til Hetjanna, félag langveikra barna á norðurlandi. Frábært það!

Sigurvegarar SjallyPally25, í karlaflokki Alexander Veigar og í kvennaflokki Ingibjörg Magnúsdóttir. Með þeim á myndinni eru John McDonald og Russ Bray.

Sigurvegari forsetabikar, Árni Gísli (t.v.) og Hannes Bjarni (t.h.) 2.sæti.

Við viljum þakka öllum þeim sem komu að mótinu með einhverjum hætti. Ykkar hjálp er ómetanleg í alla staði. Þið vitið hver þið eruð!


Svo eru það Dóri Ká og María

  • Dóri Ká – þvílíkur fagmaður fram í fingurgóma – TAKK!
  • María – allt skipulag í tengslum við Sjallann – TAKK!
  • Arna mótsstjóri – WOW! þvílíkur fagmaður þegar kemur að mótahaldi. TAKK Arna Rut!

Þvílík helgi – Sjallinn er made for SjallyPally!

Eftirfarandi fyrirtækjum viljum við þakka fyrir styrki og aðstoð í tengslum við mótið:

  • Húsasmiðjan
  • Á ferð og flugi ehf
  • Tengir
  • Exton
  • Sjallinn
  • Coca-Cola
  • Skógarböðin
  • Höldur
  • Eyjabiti
  • VÍS
  • Securitas
  • Betri fagmenn
  • SjallyPally er EPIC!


Takk fyrir okkur.
Þangað til næst, SjallyPally26!

You may also like